top of page

Ævintýrabókin - Gagnrýni

Bráðskemmtilegt leikrit fyrir börn.......og fullorðna!



Það er ekki hægt að segja annað en Leikfélag Vestmannaeyja sé ríkt af hæfileikafólki, fólki sem lætur gesti sína finna það alveg út í sal hversu gaman það hefur af því að skemmta sér og okkur hinum. Ég skellti mér á frumsýningu í leikhúsinu okkar á laugardaginn s.l. ásamt leik(hús)félaga mínum og móður Kolbrúnu Hörpu, en Leikfélag Vestmannaeyja setur þessa dagana á fjalirnar sitt 173. verk nú þegar þeir sýna barnaleikritið Ævintýrabókina. Ég hef áður viðurkennt í leikhúsgagnrýni að ég set það ekki endilega í fyrsta sæti yfir skemmtun að fara barnlaus á barnaleikrit, en ég var nú samt dálítið forvitin að sjá þetta verk því ég hef persónulega lítið heyrt þess getið. Vissi það eitt að það fjallaði um öll gömlu ævintýrin sem við þekkjum flest síðan við vorum börn s.s. Rauðhettu og úlfinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Öskubusku og hvað þau nú öll heita. Það kom okkur leik(hús)félögunum því skemmtilega á óvart að líta þann áhugaverða vinkil sem höfundurinn, Pétur Eggerz, hefur komið með á þessi annars hefðbundnu, gömlu ævintýri. Strax í upphafi fáum við að kynnast Dóru litlu (Brigitta Kristín Bjarnadóttir) sem er að lesa enn og aftur ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn þegar úlfurinn ( Skæringur Óli Þórarinsson) allt í einu ákveður að hann langi barasta ekkert að vera lengur staddur í þessu ævintýri, segist orðinn hundleiður á því að éta ömmu gömlu og Rauðhettu, vera ristur á kvið af veiðimanninum og ákveður í framhaldinu að stelast inn í hin ævintýrin í bókinni. Og þar með hefst bráðskemmtilegur eltingaleikur Dóru og veiðmannsins úr Rauðhettu-sögunni (Jökull Elí Þorvaldsson), að úlfinum til að reyna að koma honum aftur inn í sína eigin ævintýrasögu.


Það eru á þriðja tug leikara sem fara með hlutverk í Ævintýrabókinni. Mörg þeirra andlita sem birtust okkur á sviðinu að þessu sinni voru ný en áhuginn á starfinu leyndi sér ekki. Hlutverkin eru misstór og misáberandi og enn og aftur sannast það að hlutverkin þurfa ekki endilega að vera aðal til að vera eftirminnileg. Þannig voru dvergarnir, í sögunni um Mjallhvíti og dvergana sjö, allir mjög skemmtilegir og hressir...ja kannski fyrir utan hann Fúla sem var ekki alveg eins hress, þar sem þeir dönsuðu, sungu og röppuðu alveg bráðskemmtilegt lag dverganna. Textinn fór reyndar svona fyrir ofan garð og neðan til okkar sem sátum í salnum en dvergarnir bættu það upp með stuði og skemmtilegri framkomu. Með hlutverk dverganna fara Daníel Hreggviðsson, Hróðmar Tórshamar, Hafþór Hafsteinsson, Snorri Geir Hafþórsson, Anton Máni Sigfússon, Andri Hinriksson og Guðbjörg Sól Sindradóttir.


Stutt atriði en alveg dásamlegt var líka senan milli Prinsessunnar á bauninni (Eríka Ýr Ómarsdóttir) og Prinsins (Jóhann Helgi Gíslason). Þau voru svo skemmtilega ýkt í ástarjátningum sínum, og Prinsinn í ,,mjúku” hreyfingunum, að maður komst ekki hjá því að skella uppúr...ítrekað. Dásamlegt og fallegt var líka dansatriðið á milli Öskubusku (Hulda Dís Snorradóttir) og Prins Öskubusku (Ólafur Ingi Sigurðsson). Það var bæði hugljúft og rómantískt þar sem tónlistin og augnsambandið milli hinna ungu leikenda settu punktinn yfir i-ið. Ég minnist þess ekki að hafa séð Huldu Dís áður á sviði en hún fór vel með sitt hlutverk, var skýrmælt, dálítið feimin en skilaði sínu vel. Ólafur Ingi smellpassar í sitt hlutverk (prins charming) enda myndarlegur og ófeiminn piltur sem tekur sig sérstaklega vel út í prinsabúningnum. Honum hefur farið fram frá því ég sá hann síðast á sviði, er mjög öruggur á línunum sínum og það sést langar leiðir hversu gaman hann hefur að því sem hann er að gera. Hef trú á því að þessi peyji eigi bara eftir vaxa enn meira sem leikari. Kristínu Eddu Valsdóttur hef ég heldur ekki séð áður á sviði en hún leikur Mjallhvíti. Við veittum því strax athygli hversu fallega söngrödd hún hefur. Melodískur, hár og tær hljómurinn var virkilega flottur og með góðri æfingu á Kristín örugglega eftir að verða mjög góð söngkona.


Brigitta Kristín Bjarnadóttir leikur Dóru eins og áður sagði. Það mæðir talsvert á þessari ungu leikkonu því hún, veiðimaðurinn og úlfurinn tengja verkið saman. Ingrid Jónsdóttir leikstjóri gerði vel með að velja hana í hlutverk Dóru. Brigitta virkar mjög örugg á sviðinu, með línurnar sínar uppá tíu og dugleg að tala hátt og skýrt. Verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni haldi hún áfram á þessu sviði. Samleikur hennar og Jökuls Elí Þorvaldssonar var mjög fínn. Veiðimaðurinn í höndum Jökuls var bráðskemmtilegur og engu líkara en þar fari strákur sem ekkert hafi fyrir því að leika því frammistaða hans var óaðfinnanleg. Agnes Líf Sveinsdóttir leikur Rauðhettu. Agnes komst mjög vel frá sínu hlutverki, yndislega saklaus... já og dásamlega fúl yfir því að úlfurinn nennti ekki lengur að éta hana. Aðrir voru fínir í sínum hlutverkum, má þar á meðal nefna Árna Þorleifsson sem var skemmtilega undirgefinn í hluverki hins kúgaða eiginmanns skógarhöggskonunnar (Guðrún Ása Frímannsdóttir) í ævintýrinu um Óskirnar þrjár. Samleikur þeirra var líka á tíðum bráðskemmtilegur. Kristinn Viðar Þorbergsson sem Stígvélaði kötturinn var líka mjög góður verð ég að segja og Óli Bjarki Austfjörð var dásamlegur sem Amma Rauðhettu. Þá komust stjúpsystur Öskubusku (Bryndís Guðjónsdóttir/Guðbjörg Sól Sindradóttir), Vonda drottningin (Thelma Lind Þórarinsdóttir), stjúpa Öskubusku (Erla Jónatansdóttir) og mamma Dóru (Hafdís Víglundsdóttir) alveg ágætlega frá sínum hlutverkum sem er í raun alveg frábært þar sem hér eru margir að stíga sín fyrstu spor á sviði eins og áður sagði.


Tvennt stóð þó uppúr að mínu mati og leik(hús)félaga míns. Í fyrsta lagi var það óvænt innkoma Alexanders Páls Salberg. Ég hef nokkrum sinnum áður getið þess í leikhúsgagnrýni hversu skemmtilegur leikari mér finnst Alexander vera. En ef ég segi ykkur að lítil stúlka, mér algerlega ókunnug og á næsta bekk fyrir framan mig, hafi kvartað undan því við mig í hléinu að hún hafi fengið hellu fyrir annað eyrað því ég hafi öskrað af hlátri í eyrað á henni þennan (alltof)stutta tíma sem Alexander var á sviði....ja það ætti kannski að segja sitthvað um hversu hrikalega fyndinn og frábær hann var í sínu hlutverki. Í alvöru talað...ekki bara við leik(hús)félagi minn grétum úr hlátri heldur, leyfi ég mér að segja, allir hinir líka! Atriðið hans var líka svo ,,út úr kú” og, þannig séð, ótengt sögunni að maður skellihló alveg frá upphafi þess fram að því þarna í restina er hann kvartaði undan að hafa ekki fengið að klára lagið. Nú bíðum við leik(hús)félagi minn bara eftir að sjá hann í alvöru farsa...það verður eitthvað. BRAVO.... Alexander Páll!



Algjöran leiksigur vinnur hinsvegar Skæringur Óli Þórarinsson í burðarmiklu hlutverki Úlfsins. Það var ekki að finna einn galla á frammistöðu hans að okkar mati. Hann var hávær, ýktur, skemmtilegur, dálítið ógnvekjandi og bráðfyndinn. Dró að sér athyglina, hvort heldur kastljósið beindist að honum eða ekki, með skemmtilegum svipbrigðum og/eða líkamstjáningu. Skæringur er með flotta rödd, sem óumdeilanlega minnir um margt á föður hans, Tóta (Þórarinn Ólason) sem maður sá nokkrum sinnum á leiksviðinu ,,hér í denn”. Þá var líka gaman að verða vitni að því hversu viðmót og hegðun yngstu áhorfendanna í salnum breyttist um leið og úlfurinn birtist á sviðinu, frá því að vera óróleg og pískrandi yfir í algjöra þögn og uppglennt augu. Skæringur Óli átti hreinlega salinn frá því hann sté fyrst á sviðið og þar til yfir lauk. BRAVO.... Skæringur Óli!


Eins og ég nefndi áður kom það skemmtilega á óvart hvaða leið höfundurinn fer í að tengja þessi gömlu ævintýr saman. En það sem kom enn meira á óvart var hversu mikill húmor er í verkinu allan tímann og það húmor sem höfðar ekki síst til fullorðinna. Þannig var það ósjaldan sem miklu hærra heyrðist í hlátrasköllum fullorðna fólksins heldur en þeirra yngri. Fólk þarf því síst að óttast það að fara barnlaust á þetta bráðskemmtilega (barna)leikrit. Leikstjóranum Ingrid Jónsdóttur hefur tekist að ná fram því besta í þessum annars unga leikhóp, enda þekkir hún verkið vel þar sem hún hefur bæði áður sjálf leikið í því og síðar sett það upp ásamt Leikfélagi Mosfellsbæjar. Fagmennska finnst mér lýsa vinnu hennar vel hvað þessa sýningu hjá Leikfélagi Vestmannaeyja varðar. Fagmennska sem ekki síst allir hinir sem komu að uppsetningunni eiga líka allir hlut í. Þannig er bæði förðun og búningahönnun virkilega flott í þessari sýningu, áberandi litríkir búningar sem tilheyra öllum ævintýrum höfða vel til yngri áhorfendanna og gera sýninguna enn fallegri. Leikmyndahönnunin er líka smekklega einföld og frábær hugmyndin að varpa myndum úr ævintýrunum á tjaldið aftast á sviðinu. Ljós-hljóð- og myndahönnunin er líka mjög góð, og áberandi í þessu verki hversu mikilvæg og vel hún nær að skapa viðeigandi stemningu þegar leikmyndin sjálf er í minimaliskum stíl. Þá verð ég að nefna bardaga- og skylmingaatriðin sem Óli Bjarki Austfjörð sá um að hanna. Þau voru alveg frábær og svo ,,raunveruleg” að á stundum hélt maður niðri í sér andanum af ótta við að einhver myndi í alvörunni slasast. Að lokum vil ég nefna að tónlistin í þessu verki er öll hin skemmtilegasta og útfærslurnar mjög flottar. Það skyldi enginn sannur leikhúsáaðdáandi láta þetta nýjasta verk Leikfélags Vestmannaeyja framhjá sér fara. Ævintýrabókin er bráðskemmtileg leikrit fyrir alla aldurshópa vil ég meina og aðstandendum þess til mikils sóma. Hjartanlega til hamingju Leikfélag Vestmannaeyja með þetta frábæra verk.



Takk kærlega fyrir mig og okkur,


BRAVO.... Ingrid og þið öll í Leikfélagi Vestmannaeyja!


Helena Pálsdóttir

109 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page