Við erum öll börn einhvers
Ég er ein af ábyggilega mjög fáum, sem aldrei hefur séð uppsetningu á Dýrunum í Hálsaskógi eftir hinn þekkta, sænska rithöfund Thorbjorn Egner. Það er reyndar óskiljanlegt að þetta verk hafi getað farið framhjá nokkrum manni s.l. áratugi þar sem það hefur verið sett upp nánast á tíu ára fresti síðan það var fyrst frumsýnt hér á landi í Þjóðleikhúsinu árið 1962. Leikfélag Vestmannaeyja hefur líka tamið sér þessa tíu ára hefð og eftir fyrstu uppsetningu þess árið 1994, og aðra 2004, setur LV nú upp verkið í þriðja sinn. Það má því gefa sér að einhverjir sem sáu fyrstu uppsetningu LV á verkinu mæti aftur nú í ár og að þessu sinni með börnum sínum.
Ég er einlægur aðdáandi Leikfélags Vestmannaeyja en ég viðurkenni að allt síðan mín börn urðu "of gömul" til að fara í leikhúsið með mömmu sinni, hef ég látið vera að mæta á þau leikverk sem ætluð eru börnum. En ef þessi verk hafa verið eitthvað í líkingu við það sem nú er á fjölunum hjá LV, þá dauðsé ég eftir því að hafa látið þau framhjá mér fara. Þó ég hafi mikið reynt síðustu daga fyrir frumsýningu, að fá leik(hús)félaga minn Kolbrúnu Hörpu til að redda okkur eins og einum krakka einhversstaðar, svo við værum nú "löglegar" á svona barnasýningu, varð niðurstaðan engu að síður sú að við yrðum bara að fara saman tvær gömlurnar. Hugguðum okkur við það reyndar í huganum, að þó okkur hafði ekki tekist að redda barni til að halda í höndina á okkur, þá væri ég nú samt barnið hennar og hún mamma mín.
Ég las það í leikskránni fyrir frumsýningu að leikhópurinn samanstæði af ungum, reyndum leikurum og svo nokkrum sem væru að stíga sín fyrstu skref á leiksviðinu. Væntingar okkar voru þannig í meðallagi auk þess sem maður gerir einfaldlega ráð fyrir mistökum, hikstum, tækniörðugleikum og öðru sem fylgir oft frumsýningum…hvað þá þegar hluti leikhópsins er algerlega óreyndur. Það kom okkur því skemmtilega á óvart hversu ótrúlega fyrirhafnarlítið allt rann í gegn og á stundum mátti vart greina hver væri vanur og hver ekki. Má ég þá í því sambandi nefna þá tvo sem engar línur áttu í verkinu, og voru meðal þeirra sem stigu þarna sín fyrstu skref í stórri sýningu, þá Hafþór Hafsteinsson og Hróðmar Tórshamar í hlutverkum sviðsmúsa. Mikið var gaman að sjá hvað leikstjórinn hefur náð að stýra þeim vel. Aldrei í eitt skipti duttu þeir út úr hlutverkum sínum, þó fókusinn væri á öðrum leikurum, og fóru að skoða hverjir væru mættir til að horfa á þá í salnum. Og nú nefni ég þetta sérstaklega vegna þess að eldri leikarar hafa meira að segja átt þetta til. Það virkar alltaf mjög truflandi á áhorfendur og verður til þess að áhorfandinn hættir einfaldlega að hafa trú á því sem er að gerast á sviðinu. Flott frammistaða hjá þeim Hafþóri og Hróðmari.
Allir leikararnir í þessu verki áttu það reyndar sammerkt, með þessum nýliðum, að þeir héldust í karakter allan tímann og komust mjög vel frá sínum hlutverkum, þó vissulega hafi sumir verið eftirminnilegri en aðrir. Ef ég hefði ekki vitað betur hefði ég haldið að ég væri stödd á þriðju, jafnvel fjórðu sýningu svo vel smurt var verkið og hlutverkin vel sköpuð. Það segir mér að Jón Stefán Kristjánsson leikstjóri hefur sannarlega verið með fingurinn á púlsinum allan tímann og ekki látið minnsta feil framhjá sér fara. Ég átti hinsvegar ekki von á að svona barnasýning myndi hafa þau áhrif að fullorðið fólk myndi hreinlega bilast á stundum og ítrekað slá sér á lær í hláturskasti. Og svo sannarlega var hægra lær mér orðið aumt á tímabili þegar Alexander Páll Salberg í hlutverki Hérastubbs bakara, hreif salinn með óborganlegri innkomu sinni, dásamlegum hreim, drepfyndnum andlitssvipum og hárréttri tímasetningu. Alltaf þegar ég held að Alexander hefur toppað sig gerir hann bara enn betur. Hvað er með þennan peyja…er hann ekki örugglega á leiðinni í Listaháskólann? Samleikur hans og Snorra Geirs Hafþórssonar, í hlutverki bakaradrengsins, var alveg bráðfyndinn í kannski einu þekktasta atriði verksins, nefnilega hvernig skal baka piparkökur. Snorri Geir er líka rosalega skýrmæltur af svona ungum dreng að vera, og komst mjög vel frá piparkökusöngnum…svo mjög að það kom mér eiginlega á óvart hvað hann náði að halda tónhæðinni í hæstu nótunum. Það sama má segja um þau hin sem áttu einssöngssenur. Það kom þægilega á óvart hvað allir voru öruggir og áberandi afslappaðir í söngatriðunum. Það gerist ekki nema leikaranir séu með rulluna sína og sönginn alveg uppá tíu, enn eitt prikið í kladda leikstjórans. Og fyrst ég minnist á öryggi er ekki hægt að láta hjá líða að nefna öruggan leik Svanhildar Eiríksdóttur í hlutverki Bangsamömmu. Svanhildur vex með hverju hlutverkinu sem hún tekst á við og það sést kannski best á því hvað henni eru alltaf falin stærri og stærri hlutverk. Hún er bæði með rödd og andlit fyrir sviðið og það eru eftirsóttir kostir sem ekki allir lengra komnir leikarar hafa til að bera. Enn og aftur væri það alltof langt mál að telja upp hvern og einn leikara og gagnrýna. Ég læt því nægja að segja að það geta allir verið stoltir af sinni frammistöðu.
Það er þó ekki hægt að gagnrýna Dýrin í Hálsaskógi nema minnast á tvö stærstu hlutverkin þá Lilla klifurmús og Mikka ref. Samleikur þeirra Ólafs Freys Ólafssonar, í hlutverki Lilla, og Árna Þorleifssonar, í hlutverki Mikka var alveg frábær. Strax í byrjun sýningarinnar mátti greina spennu barnanna í salnum því um leið og Mikki refur birtist á sviðinu brá þeim nokkuð og köstuðu sér aftar í sætin sín, greinilega vel kunnug hinum slóttuga rebba. Það má hinsvegar nefna að þökk sé hóflegu sminki þeirra sem sáu um förðunina, var Mikki ekkert svo rosalega óhuggnalegur þannig að börnin voru fljót að taka rebba í sátt. Árni hefur vaxið sem leikari og fer vel með hlutverk Rebba. Örlítið óskýr í upphafssöngnum en það má líka kannski kenna því um að tónlistin var heldur hærri en söngurinn, bara í þessu lagi, þannig að textinn skilaði sér ekki eins vel út í salinn. Eitthvað sem verður örugglega búið að laga fyrir næstu sýningu. En börnin voru sko alveg að kaupa þennan Rebba, það fór ekki á milli mála. Sá sem stóð hinsvegar uppúr, bæði að mínu mati og leik(hús)félaga míns, var hann Ólafur Freyr. Hlutverk Lilla er eins og sniðið fyrir hann. Svona léttleikandi, mátulega kærulaus, hress og skemmtileg mús, sem á stundum virtist hafa innbyrgt aaaðeins of mikið af koffeini …náði okkur algerlega. Og ekki bara okkur heldur öllum salnum leyfist mér að halda fram. Söngur hans var alveg dásamlegur svo unun var á að hlusta og það var ekki bara okkar skoðun því eftir eitt laga hans mátti heyra lítið barn úr salnum kalla "Aftur." Það segir nú sitt eða hvað?
Það er hreint ekki sjálfsagt að lítil áhugamannaleikhús á landsbyggðinni setji upp stór og fyrirferðarmikil leikverk en við Eyjamenn erum einstaklega heppin hvað Leikfélag Vestmannaeyja er laust við alla minnimáttakennd og eru duglegt að fá til liðs við sig stórhuga og ófeimna leikstjóra eins og Jón Stefán Kristjánsson sem nú leikstýrir sínu öðru verki fyrir LV. Hver stórsýningin rekur aðra og tæknileg atriði, sem oftast eru eingöngu á færi stórra atvinnuleikhúsa að framkvæma, eru leyst með ótrúlegri útsjónarsemi og einföldum lausnum. Þannig var háloftaflug ömmu músar einmitt leyst á mjög skemmtilegan hátt svo engum þótti óeðlilegt og skildu strax að amma flygi skýjum ofar um loftin blá. Það sama má segja um alla sviðsmyndina, tónlistina, ljósahönnun, búninga og förðun í þessari sýningu. Allt var þetta vel heppnað og látlaust. Engir Disney-öfgar heldur allt í sönnum anda þess tíma þegar verkið var skrifað. Verð þó að minnast sérstaklega á hve fallegur og viðeigandi mér þótti búningur Marteins skógarmúsar. Alveg hreint dásamlegur. Auk þess sem ég má til með að hrósa leikstjóranum fyrir hlutverkaskipan því mér skilst að hann hafi haft úr stórum hóp að velja, sem í svona litlu byggðarlagi er algjört lúxusvandamál. Svo verð ég að fagna því að söngtextarnir hafi verið settir í leikskránna. Hafði áður minnst á það í gagnrýni hve mér fannst vanta að hafa textana í skránni í söngleikjum og vona ég að þetta sé hér með komið til með að vera.
Að lokum þetta: Að fenginni reynslu þarf enginn að hafa áhyggjur af því að þurfa að mæta með barn með sér á Dýrin í Hálsaskógi. Við erum jú öll börn einhverss og eigum því öll erindi á þessa frábæru sýningu LV.
Takk fyrir mig og okkur kæra Leikfélag Vestmannaeyja, Dýrin í Hálsaskógi er enn ein rósin í ykkar hnappagat.
BRAVÓ þið öll.
Helena Pálsdóttir
Comments