top of page

Fékk á stundum hárin til að rísa

Leikfélag Vestmannaeyja sýnir 10 litlir Eyjapeyjar Leikstjóri: María Sigurðardóttir

Höfundur verks: Agatha Cristie Verk Nr. 180


Leikfélag Vestmannaeyja frumsýndi 14.apríl s.l. sakamálaleikritið ,,Tíu litlir Eyjapeyjar“ sem byggt er á metsölubókinni ,,And then there were none“ eftir glæpasagnahöfundinn Agatha Christie. Verkið segir frá tíu ólíkum karakterum sem allir þekkjast boð um að koma og dvelja um stund á eyju einni. Smá saman rennur upp fyrir fólkinu að ekki er allt sem sýnist og áður en við vitum erum við stödd á morðvettvangi þar sem persónur verksins, ásamt okkur leikhúsgestum, keppast við að finna út hver morðinginn er áður en yfir líkur. Sannarlega öðruvísi og spennandi verk sem leikfélagið ber á borð fyrir okkur Eyjamenn að þessu sinni og sem í bland við örlítinn húmor og frábæra hljóð- og myndstjórn, fékk á stundum litlu hárin til að rísa. Já það og sú staðreynd að konan sem sat mér á vinstri hönd greip öðru hvoru í fótinn á mér og öskraði þegar henni brá sem mest! Nefni engin nöfn. Þrátt fyrir að verkið virtist dálítið lengi í gang, svona rétt á meðan maður var að átta sig á aðstæðum og karakterunum, var þess ekki langt að bíða þar til fyrsti glæpurinn var framinn og áður en leikhúsgestir vissu voru þeir komnir á kaf í pælingar um hver hinn seki gæti verið. Eins og gefur að skilja í svona sakamálaverki þar sem vísbendingar í orðum, hlutum og gjörðum liggja víða, er mikilvægt að leikendur séu skýrmæltir, flýti sér ekki um of að fara með línurnar sínar og tali hátt og skýrt alveg frá fyrstu innkomu annars er hætta á að áhorfandinn týni þræðinum og fari að leiðast þegar hann skilur ekki hvers vegna þessi eða hin persónan segir og/eða gerir þetta og hitt. Að þessu sögðu má segja að leikurum LV tekst þetta að langflestu leyti. En þar sem þetta skorti kom það ekki að sök.



Á sviði LV fáum við að þessu sinni að bera augum allt frá glænýjum og óreyndum leikurum upp í þá þrælvönu þar sem fagmennska og afslöppuð framkoman er hreint og beint hressandi...svo mjög að þú gleymir um stund stað og tíma. Búningar, hár og förðun ásamt sviðsmyndinni, sem er framúrskarandi vel heppnuð og fagmannlega unnin í samræmi við tíðarandann sem verkið gerist á, vinnur allt saman að að því að gera heildarmyndina trúverðuga. Eða svona allt að því ...ef undan er skilið neongrænt hárið á hinni forhertu og biblíuveifandi Emilíu Brent. Ég fékk reyndar þá útskýringu eftir sýninguna að háraliturinn ætti að sýna í hversu mikilli mótsögn persónan væri við sjálfa sig sem er gott og vel en satt best að segja fannst okkur, Kolbrúnu Hörpu Kolbeinsdóttur leikhúsfélaga mínum, þetta bara truflandi og draga athygli að einhverju sem var í raun alger óþarfi fyrir söguna sjálfa. Persónusköpunin sem María Fönn Frostadóttir ber okkur á borð sem hin ofurtrúaða piparjúnka Brent er meira en nóg og á stundum fanta góð. Það er virkilega gaman að sjá hversu mikið henni hefur farið fram síðan hún lék smá hlutverk í Línu Langsokkur á fjölum LV árið 2019. María er skýrmælt og virkar örugg auk þess sem bæði fas hennar og tjáning í hlutverki þessarar forhertu og dómhörðu konu, sem sjálf á sitthvað óuppgert í fortíð sinni líkt og hinar persónurnar, var virkilega góð. Elí Kristinn Símonarson, sem leikur virðulega brytann Rogers, sem lætur ekki eitthvað smávægilegt eins og morð hafa of mikil áhrif á getuna til að sinna starfi sínu, var líka góður í sinni persónusköpun. Við fáum að sjá hann nú í aðeins stærra hlutverki en síðast þegar hann lék Nenna níska í Latabæ og fór vel með en það gerir hann einnig nú.



Hressandi framkoma Margrétar Steinunnar Jónsdóttur, sem leikur kokkinn Ethel Rogers, pínu taugaveiklaða eiginkonu brytans, var tekið fagnandi. Hún er skemmtileg í sköpun sinni, bráðfyndin og fer einstaklega vel með línurnar sínar. Helga Lind Halldórsdóttir leikur hinn klára en jafnframt dálítið móðursjúka einkaritara Veru Claythorne. Ferst henni það vel úr hendi og það má sömuleiðis segja um þau Birnu Karen Wíum sem er mjög trúverðug sem veiklundaði og lyfjafróði læknirinn Armstrong, Reynir Þór Egilsson sem leikur hinn unga, myndarlega og að því er virðist samviskulitla ökufant Anthony Marston og svo Breka Einarsson sem kemur fram í litlu hlutverki ferjumannsins Narracot. Goði Þorleifsson er afar eftirminnilegur í hlutverki hins frakka og pínu klaufalega William Blore fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns. Persónusköpun Goða er bæði skemmtileg og trúverðug. Öldunginn Mackenzie hershöfðingja leikur Alexander Páll Salberg. Ég minnist þess ekki að hafa séð Alexander í jafn alvörugefnu hlutverki áður en það kom skemmtilega á óvart hversu vel honum ferst það úr hendi að leika hinn aldraða hershöfðingja sem þjakaður er af samviskubiti vegna atburða úr fortíðinni sem ekki verður farið nánar út í hér. Við Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir leikhúsfélagi minn höfum haft mikið gaman af því að fylgjast með Alexander blómstra í hverju hlutverkinu á fætur öðru á sviði LV. Sérstaklega í försum og í öðrum kómískum hlutverkum enda er maðurinn með tímasetningar alveg upp á tíu...og það er hreint ekki öllum gefið. Það fór því vel að hann skyldi heiðraður í lok frumsýningar fyrir störf sín með leikfélaginu.



Albert Snær Tórshamar fer með hlutverk Sir Lawrence Wargrave fyrrum dómara sem ber með sér formfasta og virðulega framkomu sem ásamt reynslu hans í dómarastarfinu verður til þess að aðrir gestir eyjunnar leita svolítið til hans eftir úrvinnslu gagna sem hjálpa megi við að leysa morðgátuna. Albert Snær, líkt og Alexander bróðir hans, virðist ekki geta slegið feilnótu þegar kemur að túlkun og hárréttri persónusköpun. Albert er alveg einstaklega afslappaður á sviði, sjálfsöruggur og virkar fullur af sjálfstrausti án þess að sýna minnsta vott af hroka. Hann verður eitt með karakternum sem fyrir áhorfandann er svo innilega þakklætisvert því fyrir vikið fer áhorfandinn að trúa persónunni, trúa því sem er að gerast á sviðinu, trúa sögunni sem verið er að segja. Það er því alltaf tilhlökkunarefni þegar maður les leikskrána fyrir sýningu og sér að Albert er þar á meðal leikara. Aron Kristinn Smárason fer líka virkilega vel með hlutverk sitt sem Philip Lombard. Lombard er dularfullur, myndarlegur, sjálfsöruggur og úrræðagóður fyrrum málaliði í Afríku sem virkar frakkur, kænn og áræðinn ásamt því að búa yfir veikleika fyrir hinu kyninu og þá sérstaklega fyrir einkaritaranum Veru Claythorne. Aron Kristinn hefur áður leikið stóra rullu á fjölum leikfélagsins þegar hann fór með hlutverk íþróttaálfsins í ,,Glanni glæpur í Latabæ“ árið 2018. Hann virkar hins vegar sérstaklega sjálfsöruggur í hlutverki sínu að þessu sinni og líkt og Albert Snær er hann einstaklega afslappaður, með flottar tímasetningar og ber sig einstaklega vel á sviði. Það var því vel til fundið að fá Aron Kristinn í þetta hlutverk sem og þau hin í sín hlutverk og ber það að þakka Maríu Sigurðardóttur þrælvönum og fantagóðum leikstjóra verksins. Það er mikið ábyrgðarverk að taka að sér að stjórna svona ungum hópi leikara sem sumir hverjir hafa jafnvel ekki stigið á svið áður og hvað þá í verki eins og þessu. En hér hefur vel tekist til....og rúmlega það.



Takk Unnur Guðgeirsdóttir fráfarandi formaður Leikfélags Vestmannaeyja fyrir allt þitt ómetanlega starf bæði á sviði og utan þess. Þitt framlag í þágu leikhúsmenningar okkar Vestmannaeyinga verður seint metið til fulls. Þér er jafnframt hér með fyrirgefið að grípa ítrekað í fótlegginn á mér og öskra þegar þér brá í bregðuatriðunum...takk fyrir að gera sýninguna meira ,,áþreifanlegri“ fyrir vikið.

BRAVÓ ....María Sigurðardóttir og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja.

Takk fyrir mig og okkur, Helena Pálsdóttir

74 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page