Segja bræðurnir Alexander Páll og Albert Snær sem fara með aðalhlutverkin, systurnar Mörtu og Abbý Brewster.
Þeir eru bræður en þessa dagana eru þeir að slá í gegn hjá Leikfélagi Vestmannaeyja sem systurnar Marta og Abbý í leikritinu Blúndur og Blásýra. Þeir eru mjög ólíkir, annar feiminn og hinn athyglissjúkur en leikfélagið dregur þá saman á mjög ólíkum forsendum. Eyjafréttir hittu bræðurna Alexander Pál Salberg og Albert Snær Tórshamar á dögunum. Bræðurnir koma úr stórum systkinahóp, samtals eru systkinin átta. Það er því alltaf líf og fjör í kringum þá. „Já það er alltaf mikið líf hjá okkur“, sagði Alexander. Bræðurnir eru mjög ólíkir og segja þeir að eina sem þeir eigi sameiginlegt sé húmorinn. „Húmorinn er það sem dregur okkur saman“, sagði Alexander og tók Albert undir það. „Þessi fíflalæti koma sennilega frá pabba, það er alltaf stutt í grínið þar. En foreldrar okkar vita svo sem ekki hvaðan þessi leikúsbaktería hjá okkur kemur“, bætti hann við.
Feiminn og athyglissjúkur
Alexander hefur verið í leikfélaginu síðan árið 2003, „ég er mjög feiminn en leikfélagið hefur gefið mér sjálfstraust og ég á mun auðveldara með að koma fram, samt á ég töluvert auðveldara með að koma fram þegar ég er í gervi“, sagði Alexander. Albert sagðist hinsvegar vera mjög athyglissjúkur og ekkert feiminn enda líkaði honum strax við umhverfið sem leikhúsið bauð uppá. „Ég var eiginlega dreginn í leikhúsið um haustið 2016. Það voru tveir leikarar sem hættu og ég var fenginn til að leika Sölva Súra og þurfti að gera það á stultum. Alexander stakk uppá því að ég mundi leika hann og dróg mig eiginlega í leikfélagið og er ég honum mjög þakklátur fyrir það“, sagði Albert.
Blúndur og blásýra
Aðspurðir um leikhúslífið sögðu bræðurnir að fólkið í leikhúsinu væru vinir þeirra og að hópurinn væri mjög ólíkur en að allir myndu ná vel saman. „Það sést best á leikritunum sem hafa verið gerð hérna, margir ólíkir persónuleikar gera verkin bara betri“, sagði Alexander. Í byrjun apríl var leikritið Blúndur og blásýra frumsýnt og sögðu strákarnir að viðtökur hefðu verið mjög góðar. „Viðtökur hafa verið mjög góðar, eiginlega bara betri heldur en ég bjóst við“, sagði Alexander. „Þetta er það fyndið að á fyrstu sýningunni sprungu leikarar á sviðinu úr hlátri og þar með hlóg salurinn enn meira, sem gerði það að verkum að leikararnir áttu erfitt með að hætta að hlægja, en það endaði allt saman mjög vel“, sagði Albert.
Áhugamál og draumur
Aðspurðir um framtíðina í leikhúsinu voru bræðurnir á sitthvorum endanum með þau plön. „Fyrir mér er þetta bara mjög skemmtilegt áhugamál, sem mér finnst gaman að gera með öðrum“, sagði Alexander. „Ég sé fyrir mér að vinna við þetta. Vonandi eftir eitt til tvö ár fer ég og reyni fyrir mér í leiklistarskólanum, það er allavega draumurinnn“, sagði Albert. Bræðurnir vildu að lokum hvetja alla þá sem eiga sér þann draum um að leika eða taka þátt í leikhússtarfi að ekki hika við að mæta þegar auglýst er eftir fólki fyrir leiksýningar. „Það eru allir velkomnir í leikfélagið“, sögðu bræðurnir að lokum.
© Eyjafréttir
Comments