Þurrkuð gleði og hrifningartár
Enn og aftur býður Leikfélag Vestmannaeyja okkur að koma og njóta. Og að þessu sinni er það sjálfur H. C. Andersen sem segir okkur nokkrar af sínum bestu sögum. Þannig vakna þau til lífsins fyrir augum leikhúsgesta, allar drottningarnar og kóngarnir, prinsarnir og prinsessurnar ásamt ótal dýrum og kynjaverum sem prýða hin ómetanlegu ævintýri Andersen. Flest höfum við lesið, heyrt eða séð þessi ævintýri sem um ræðir en ekki fyrr en nú fengið að njóta þeirra í bráðskemmtilegri leikgerð þeirra Ármanns Guðmundssonar, Sævars Sigurgeirssonar og Þorgeirs Tryggvasonar. Verkið, sem á sínum tíma vann til leiklistarverðlauna Grímunnar sem besta barnasýningin, er hreint vaðandi í dásamlegum húmor, án þess þó að fara í út einhverja vitleysu. Sjálfir söguþræðirnir, sem við öll þekkjum, fá að halda sér en við þá blandast bráðskemmtilegur húmor um leið og eitt og annað er fært í nútímalegra samhengi, hvort heldur það er stuttur leðurjakki söguhetju í Förumanninum eða áður þekkt tabú eins og faðir í kjól og hrifning fólks af sama kyni í Svínahirðinum. Þórarinn Ólason fer með hlutverk H.C. Andersen, söguritarans sem sér um að tengja sögurnar saman í verkinu og ferst honum það vel úr hendi. Nær frammistaða hans hápunkti í sögunni Litlu stúlkan með eldspýturnar. En það atriði var einkar vel útfært þar sem fallegar svarthvítar myndskreytingar Ara Hlyns Guðmundssonar ljáðu fögrum söng Þórarins vængi í túlkuninni á þessari sorglegu sögu, þannig að mörgum leikhúsgestum vöknaði um augun...þar á meðal undirritaðri. Mér þykir einkar vænt um þegar eldri og reyndari leikarar snúa aftur á sviðið og ljá leikhúsinu starfskrafta sína líkt og Þórarinn hefur gert undanfarið. Það er svo dýrmætt fyrir nýja og upprennandi leikara að fylgjast með og læra af þeim sem reynsluna hafa...fyrir utan auðvitað hvað það er skemmtilegt fyrir okkur hin að sjá þessi ,,gömlu” andlit aftur á sviði.
Þrjátíu leikarar koma við sögu
Það eru rétt tæpir þrjátíu leikarar sem koma að verkinu, flestir á aldrinum 9 til 14 ára og af þessum þrjátíu er næstum helmingur þeirra að stíga á svið í fyrsta skipti á ævinni. En það var hreint ekki að merkja á frumsýningunni. Hópatriðin voru litrík, flott, skemmtilega útfærð og gaman að sjá hvað flestir þessara ungu leikara virtust vera með sitt á hreinu. Ekki síst þar sem flestir leikararnir í verkinu fara með fleiri en eitt hlutverk. Það segir okkur eitthvað um alla þá vinnu sem liggur að baki hjá leikstjórum og öðrum aðstandendum verksins. Okkur leik(hús)félaga mínum, Kolbrúnu Hörpu Kolbeinsdóttur, fannst líka skína í gegn hvað krakkarnir virtust skemmta sér vel við það sem þau voru að gera. Og þó á heildina litið hafi allir staðið sig með mikilli prýði í minni hlutverkum eins og hundarnir þrír í Eldfærunum, svínin dásamlegu í Svínahirðinum, borgarbúarnir, furðuverurnar, hirðmeyjarnar og hirðmennirnir, þá voru nokkrir eftirminnilegri en aðrir. Rakel Perla Gústafsdóttir var til að mynda dásamlega krúttleg sem litli ljóti andarunginn, Gabríel Ari Davíðsson skemmtilegur sem pósturinn og Bertha Þorsteinsdóttir meinfyndin sem gömul kona. Þá voru þau Hulda Helgadóttir, Aron Kristinn, Arnar Gauti, Snorri Rúnarsson, Snorri Geir, Þorgerður Katrín og Eva Sigurðardóttir líka eftirminnileg í sínum hlutverkum. Ekki síst þær tvær síðastnefndu fyrir fallegan tónlistarflutning í túlkun þeirra á Næturgalanum. Kristín Edda Valsdóttir var líka skemmtileg í sínum fjórum hlutverkum og býr yfir einkar fallegri söngrödd. Ólafur Ingi Sigurðsson fór líka vel með sín hlutverk. Hann heldur áfram að vaxa með hverju hlutverkinu sem hann tekst á hendur og er bráðfyndinn í þessu stykki. En það sem kom undirritaðri persónulega á óvart að þessu sinni var hversu fallega söngrödd hann virðist búa yfir og áður falið og fallegt víbradó komið í endann á tónunum hans. Vel gert. Ung stúlka Ísey Heiðarsdóttir kom líka mjög á óvart í sínum litlu hlutverkum. Ég hef ekki áður séð Ísey á sviði en það er engu líkara en á sviði hafi hún verið frá fæðingu! Hún var heillandi, áberandi afslöppuð og eðlileg í allri leikrænni tjáningu og fór sérstaklega vel með línurnar sínar. Ætla ég rétt að vona að við fáum að sjá meira af henni á leiklistarsviðinu í framtíðinni. Jóhann Helgi Gíslason fer með þrenn hlutverk í sýningunni en það hlutverk sem stendur uppúr er frammistaða hans í Hans klaufa. Jóhann fór hreint og beint á kostum í hlutverki hins ráðagóða og jákvæða Hans klaufa og hreif salinn auðveldlega með sér. Var svo bráðfyndinn og skemmtilegur í allri tjáningu að leikhúsgestir skelltu ítrekað uppúr. Vel að verki staðið og áberandi hversu mikið Jóhann hefur stigið upp í sinni persónusköpun. Thelma Lind Þórarinsdóttir fer með fjögur hlutverk í verkinu og þó hún fari vissulega vel með þau öll er hún sérstaklega dásamleg í túlkun sinni bæði á föðurnum og keisaranum. Hún hefur háa, skýra og góða rödd og svo finnst mér hún líka bara bráðfyndin í hlutverkum sínum. Það hefur verið gaman að fylgjast með Thelmu vaxa og dafna sem leikona á sviði Leikfélags Vestmannaeyja og fá ögn stærri og bitastæðari hlutverk í hvert sinn. Henni er líka fullkomlega treystandi til þess. Albert Snær Tórshamar fer með nokkur hlutverk líkt og aðrir leikarar í verkinu. En það er nánast sama hvaða hlutverk það er sem Albert tekur að sér...hann algjörlega neglir það! Hann er sjúklega fyndinn hvort heldur sem kóngur, sonur eða konungssonur og er það ekki bara textanum að þakka heldur sýnir hann einnig frábæra leikræna tjáningu, óaðfinnanlega tímasetningu, er bráð skemmtilegur á sviði... já og svo getur maðurinn líka sungið...og það vel! Ég veit hreinlega ekki hvað það er í blóðinu á þeim bræðrum Alberti Snæ og Alexander Páli Salberg, aðstoðarleikstjóra verksins, en eitt er víst að þeir eru stútfullir af leiklistarhæfileikum og óborganlegri kómík. Að hafa þá báða í sama verki að þessu sinni, þó aðeins annan þeirra á sviði, hlýtur að láta hvaða leikstjóra sem er finnast hann hafa unnið stóra pottinn í einhverjum lukkuleik! Nú hef ég ekki tölu á hversu oft þeir bræður hafa unnið saman í leikhúsinu en varlega áætlað er þetta a.m.k. þriðja verkið sem ég veit um. Ég og okkur leik(hús) félaga mínum hlakkar óstjórnlega til þess að sjá þá vinna meira saman í framtíðinni.
Einkar vel heppnað
Við Kolbrún vissum sannarlega ekki hverju við máttum eiga von á er við mættum til frumsýningar á Klaufum og kóngsdætrum á sunnudagskvöldið s.l. enda hvorugar heyrt af þessu verki áður. En ég átti hreint ekki von á að þurfa ítrekað að taka af mér gleraugun til að þurrka burt tárin eftir hverja hlátursrokuna á fætur annarri en sú var engu að síður raunin. Verkið er í heildina einkar vel heppnað, sem kemur í sjálfu sér ekki á óvart því Leikfélag Vestmannaeyja hefur bæði sýnt það og sannað að það er metnaðarfullt leikfélag þó það sé lítið. Það slær heldur ekki af kröfum sínum þegar kemur að því að ráða til sín metnaðarfulla leikstjóra og er ráðning Árna Grétars Jóhannssonar til merkis um það. En Árni leikstýrði með eftirminnilegum hætti Benedikt búálfi hjá LV árið 2016. Klaufar og kóngsdætur er einstaklega falleg og litrík sýning þar sem búningar, sviðsmynd, lýsing og hljóð skiptir sköpum. Örlitlir vankantar hér og þar voru á hljóði þannig að erfitt var á stundum að heyra textann í sönglögunum. En það verður örugglega búið að laga áður en þessi orð rata á prent. Búningarnir í verkinu voru algjörlega meiriháttar og reyndar það fyrsta sem maður tók sérstaklega eftir í upphafsatriði verksins. Sannarlega glæsileg og vönduð vinna sem liggur þar greinilega að baki. Sviðsmyndin var einföld og einkar haganlega gerð og leikmunirnir skemmtilega útfærðir. Og hver það var sem átti hugmyndina að áletruninni á legsteininum þarna í ónefndu atriði...væri réttast að tilnefna til fálkaorðunnar! Þvílík hlátrasköll og bakföll sem riðu yfir salinn eftir að áletrunin kom í ljós. Þá er ekki hægt að sleppa því að minnast aftur á myndskreytingarnar eftir Ara Hlyn sem voru algjörlega frábærar og svo á tónlistina sem Gísli Stefánsson sá um að útsetja af sinni alkunnu snilld.
Bravó Árni Grétar og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja og til hamingju.
Takk fyrir mig og okkur,
Helena Pálsdóttir
Comentarios