Helena Pálsdóttir rýnir í sýninguna okkar.
23 ár síðan Latibær kom út
Það er ótrúlegt til þess að hugsa að liðin séu heil tuttugu og þrjú ár síðan sagan af Latabæ kom fyrst út. Sagan, sem skrifuð var af Magnúsi Scheving, átti að höfða til barna og hvetja þau bæði til aukinnar hreyfingar og til að velja hollari kosti í mat og drykk. Það má með sanni segja að íslensk börn hafi tekið ástfóstri við hina litríku karaktera í sögunni, ekki síst eftir að þeir birtust öllum ljóslifandi á sviði og seinna í sjónvarpi. Íþróttaálfurinn, Solla stirða, Glanni glæpur, Siggi sæti og hvað þau heita öllsömul urðu allt í einu vel þekktir karakterar inná allflestum heimilum á Íslandi og síðar víða um heim. Ekki margir hinsvegar vita að Leikfélag Vestmannaeyja var fyrsta leikfélagið til að ljá persónunum í Latabæ líf. En árið 1996 samdi Sigurgeir Scheving leikverk byggða á fyrstu bókinni Áfram Latibær og var verkið frumsýnt hjá LV sama ár. Nú í ár eru karakterarnir í Latabæ mættir aftur á svið Leikfélags Vestmannaeyja þó söguþráðurinn sé reyndar ekki sá hinn sami. Leikverkið Glanni glæpur í Latabæ eftir þá félaga Magnús Scheving og Sigurð Sigurjónsson var fyrst frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1999 og þó meginþemað um hollustu og bætt líferni sé hinn sami gegnumgangandi söguþráður fáum við nú í fyrsta skipti að kynnast persónunni Glanna glæp sem aldeilis á eftir að láta til sín taka í Latabæ með ýmsum klækjabrögðum og hrekkjum.
Salurinn í bæjarleikhúsi okkar Eyjamanna var þéttsetinn á frumsýningu leikverksins föstudagskvöldið 19.okt. s.l. og eftirvæntingin leyndi sér ekki í andlitum leikhúsgesta sérstaklega þeim yngri. Ég og minn leik(hús)félagi, Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir, vorum líka ákaflega spenntar er við höfðum komið okkur þægilega fyrir í sætum okkar með fallega gerða leikskránna og sáum í henni, okkur til mikillar gleði, að vænta mátti þess að sjá góða blöndu af þrælvönum leikurum og svo algjörum nýgræðingum. Það er að okkar mati alltaf besta blandan hjá áhugamannaleikhúsum því um leið og gaman er að sjá reynsluboltana fara með sínar rullur, oft á tíðum óaðfinnanlega, þá er um leið svo gaman að horfa á öll þessu nýju andlit sýna hvað í þeim býr. Ótrúlegur fjöldi eldri og yngri leikara koma að þessari 178. sýningu LV eða á bilinu 30 – 40 manns á aldrinum 7 til 29 ára og af þeim er tæplega helmingur þeirra að stíga sín fyrstu spor á sviðinu.
Hópatriðin voru skemmtilega útfærð en ásamt aðalleikurunum, sem nefndir verða hér á eftir, voru þau í höndum Önnu Margrétar Svansdóttur, Alexöndru Óskar Guðrúnardóttir, Ágústu Andersen, Birnu Daggar Egilsdóttur, Emblu Heiðarsdóttur, Lilju Sigurðardóttur, Magdalenu Jónasdóttur, Maríu Fannar Frostadóttur, Reynis Þórs Egilssonar, Söru Bjartar Gunnarsdóttur, Söru Elíu Jóhönnudóttur, Söru Sindradóttur og Sigurlaugar Margrétar Sigmarsdóttur. Ég þreytist seint á að nefna hversu mikið ég dáist að þegar leikstjórinn nær að leiðbeina ungum og nýjum leikurum svo vel að þeir freistist ekki til að detta úr karakter meðan athygli áhorfenda er ekki á þeim. Ég fullyrði að það gerðist ekki í eitt einasta skipti á meðan frumsýningunni stóð, sem mér finnst eitt og sér bara stórkostlegt þegar svo stór hluti leikenda er þetta ungur. Þau voru alltaf í karakter, allan tímann og eiga sannarlega skilið hrós fyrir sína frammistöðu. Smávegis tæknilegur galli var þó á annars flottu söngatriði Glaumbæjargengisins en textinn skilaði sér illa út í sal til áhorfenda og því dálítið erfitt að ná innihaldi textans. Það hefði mögulega verið sniðugt að hafa einhvern baksviðs með hljóðnema til að syngja með svo textinn skilaði sér betur út til áhorfenda. Þar með eru nánast allir gallarnir á verkinu upptaldir. Svo upptendraðir, líflegir og skemmtilegir voru leikararnir í sínum túlkunum að fátt sem átti ekki að gerast vakti mikla athygli áhorfanda.
Brynjar Ingi Narfason og Ísey Heiðarsdóttir voru líflegir og skemmtilegir álfar við hlið Íþróttaálfsins. Daníel Franz Davíðsson var mátulega hátíðlegur sem bæjarstjórinn og átti nokkrar skemmtilegar innkomur. Bertha Þorsteinsdóttir, sem leikur póstinn, og Lísa Guðbjörnsdóttir sem leikur Lolla löggu komust líka mjög vel frá sínum hlutverkum og þá var Gabríel Elí Davíðsson skemmtilegur í hlutverki hins tölvusjúka Gogga mega. Elí Kristinn Símonarson vakti athygli mína fyrir góða túlkun í hlutverki Nenna níska og sýndi oft á tíðum þrælfína tjáningu þó athygli áhorfanda væri kannski á einhverju allt öðru en honum. Þá hefur hann fína rödd og talar hátt og skýrt. Snorri Geir Hafþórsson, sem leikur Magga mjóa, hefur tekið miklum framförum frá því ég sá hann síðast í leikverki hjá LV og gaman að sjá hversu vel hann vinnur með sinn karakter. Thelma Lind Þórarinsdóttir fer með hlutverk Stínu símalínu og gerir það vel. Hún var mátulega ýkt og á stundum alveg bráðfyndin í túlkun sinni. Selma Rún Scheving Jónsdóttir leikur Sollu stirðu. En til gamans má nefna að Selma Rún er dóttir Hrundar Scheving sem fór einmitt með hlutverk Íþróttaálfsins í uppsetningu Sigurgeirs Scheving, afa Hrundar og langafa Selmu, á Áfram Latibær hjá LV árið1996. Selma virkaði pínulítið feimin í upphafi verksins en vann á eftir því sem leið á sýninguna og var með þeim eftirminnilegri að henni lokinni. Má ég þá sérstaklega nefna í því sambandi söngatriðið milli hennar og Huldu Helgadóttur sem fer með hlutverk Höllu hrekkjusvíns. Það var dásamlegt. Og fyrst ég minnist hér á Huldu, sem reyndar er ekki að stíga sín allra fyrstu skref á leiklistarsviðinu, þá verð ég að nefna hversu vel hún fór með hlutverk Höllu. Hún var bæði einlæg og látlaus til að byrja með og óx með hverri innkomu. Þá hefur hún ágætis söngrödd og gæti mögulega látið að sér kveða á því sviði í framtíðinni með réttri þjálfun. Aron Kristinn Smárason fer með hlutverk Íþróttaálfsins og ferst það vel úr hendi. Hann hefur algjörlega rétta útlitið í hluverkið, er líkamlega sterkur, hefur háa og skýra rödd og hreint magnað að heyra hversu vel hann fór með línurnar sínar jafnvel strax eftir að hafa gert erfiðar þrekæfingarullu á sviðinu. Það er sannarlega ekki á allra færi.
Albert Snær Tórshamar leikur með eftirminnilegum hætti Sigga sæta. Ég sagði þegar ég sá hann fyrst á sviði árið 2016, í verkinu um Benedikt búálf, að þar færi leikari sem ég vildi gjarnan sjá aftur á sviði. Það gekk eftir og hefur Alberti farið jafnt og þétt fram með hverju hlutverkinu sem hann hefur tekist á hendur síðan þá. Hann hefur þetta ,,extra” sem ekki öllum leikurum er gefið og því gleður það mig óumræðanlega þegar leikstjórar og þeir sem hafa með hlutverkaskipan í leikhúsinu að gera, treysta honum fyrir sífellt stærri og bitastæðari hlutverkum. Albert sýndi það á frumsýningunni að hann stendur fyllilega undir því trausti, var bráðskemmtilegur og hrikalega fyndinn í tjáninu sinni jafnvel þó hann segði ekki orð! Það sama má svo sannarlega segja um bróður hans Alexander Pál Salberg sem fer hreinlega á kostum í hlutverki Glanna glæps. Líkt og með okkar ástkæra leikara Stefán Karl Stefánsson, þá smellpassar Alexander í hlutverk Glanna glæps. Hann verður eitt með karakternum og sýnir það í allri sinni leikrænu tjáningu, fasi, orðum og gjörðum svo unun verður á að hlýða og sjá. Ekki síst voru það yngstu leikhúsgestirnir sem voru alveg að trúa því að þar færi hinn eini sanni Glanni glæpur því þau tóku á stundum fullan þátt í því sem var að gerast á sviðinu með óvæntum frammíköllum sem vöktu mikla kátínu áhorfenda. Eins og þegar einn af þeim allra yngstu mátti til með að láta Glanna glæp vita að ástæðan fyrir því að vélin hans virkaði ekki væri sú að hann ætti eftir að stinga vélinni í samband.
Glanni glæpur í Latabæ er dásamlega litrík og skemmtilegt sýning sem leikstjórinn Ólafur Jens Sigurðsson og aðrir aðstandendur verksins geta með sanni verið stoltir af. Stóran þátt í því á glæsileg og haganlega útfærð sviðsmynd, fallegur söngur, litríkir og vel gerðir búningar, góð förðun og vel framkvæmd ljós- og hljóðstjórn. Allt þetta gaf okkur leikhúsgestum ómetanlega og skemmtilega stund í leikhúsi okkar bæjarbúa s.l. föstudagskvöld.
BRAVÓ…Ólafur Jens og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja!
Takk fyrir mig og okkur, Helena Pálsdóttir
Comments