Grátið af hlátri... á Sex í sveit
Það angraði ekki nokkurn einasta mann, sem gekk út að lokinni frumsýningu Leikfélags Vestmannaeyja á verkinu Sex í sveit, að úti rigndi yfir prúðbúna leikhúsgestina. Það var sama hvert okkur Kolbrúnu Hörpu Kolbeinsdóttur leik(hús)félaga mínum var litið, allstaðar mættu okkur brosandi andlit sem mörg hver voru enn að rifja upp atriði úr verkinu og enginn lét regndropana spilla fyrir sér gleðinni sem þau höfðu upplifað klukkustundirnar á undan. Sex í sveit sáum við Kolbrún Harpa fyrst á sviði í kringum síðustu aldamót þegar Leikfélag Reykjavíkur ferðaðist með uppfærsluna hingað til Eyja. Þar fóru leikararnir Edda Björgvins og Gísli Rúnar algjörlega á kostum ásamt öðrum, enda varð það verk eitt það vinsælasta frá upphafi hjá LR og sýnt í heil þrjú ár. Þetta er hraður farsi sem gerist í sumarbústað hjónanna Benedikts og Þórunnar sem þau hafa snyrtilega útbúið sér í gömlum súrheysturni. Rómantísk helgi fjarri heimilinu og lygar sem í upphafi virðast ekkert svo flóknar, verða það hinsvegar þegar inn í söguna blandast viðhöld, veisluþjónustukokkur og eiginmaður hennar. Þetta er farsi eins og hann gerist bestur uppfullur af endalausum misskilningi, vandræðagangi, hagræðingu sannleikans, orðaleikjum og því sem mestu máli skiptir, sprenghlægilegum húmor. Maður græðir ýmislegt á því að vera reglulegur gestur í leikhúsum úti á landi. En fyrir utan það að fá að njóta allskonar leikhúsverka í góðum félagskap, hlæja eða gráta nema hvort tveggja sé, þá á stundum gefast manni tækifæri að sjá unga og óreynda leikara stíga sín fyrstu skref á leiklistarsviðinu. Samfara því fáum við svo að fylgjast með þessum sömu leikurum vaxa og dafna með hverju hlutverkinu sem þeir takast á hendur og hrífast svo mjög að við liggur að manni vökni um augun af stolti...þó maður eigi nákvæmlega ekkert í neinum á sviðinu. Og þó byrjandahlutverkin séu ekki endilega stór í sniðum, margorða eða fyrirferðarmikil þá er maður orðinn ansi lunkinn við að koma auga á þá einstaklinga sem í sínum fyrstu hlutverkum virðast hafa þetta ,,eitthvað” sem þarf til að geta náð lengra á sviði leiklistarinnar. Eins fáum við að sjá þá, sem vöktu kannski litla athygli í sínu fyrstu verkum, allt í einu blómstra á sviðinu þannig að maður hálf gapir af undrun yfir framförunum.
Birta Marinósdóttir leikur Þórunni. Ég hef áður nefnt í þessum pistlum mínum að Birta hafi andlit fyrir sviðið og stend við það. Þrátt fyrir ungan aldur er Birta ein af reynsluboltunum á sviðinu að þessu sinni. Hún er alltaf eftirminnileg sama í hvaða hlutverki hún er, algjört sjarmatröll, bráðskemmtileg og með allt sitt á hreinu. Hún passar einkar vel í hlutverk Þórunnar og á auðvelt með að fá mann til að halda svolítið með henni í samskiptum hennar við eiginmanninn þó hún hafi síst minna á samviskunni en hann.
Ólafur Ingi Sigurðsson leikur Benedikt en Ólafur er einn af þessum ungu leikurum LV sem hefur vaxið með hverju hlutverkinu sem hann hefur tekist á hendur. Ólafur virkaði mjög öruggur á frumsýningunni, líkt og hann hafi beðið lengi eftir að taka þetta stórt hlutverk að sér og verið staðráðinn í að tækla það hundrað prósent. Það gerir hann líka...og virðist meira að segja hafa lítið fyrir því. Hann er þolinmóður strax í fyrstu innkomu þar sem hann stendur einn á sviðinu í góða stund og spjallar við áhorfendur. Hann er sérstaklega skýrmæltur, gefur sér góðan tíma í að gera hlutina og gerir þá vel. Leikræn tjáning var líka með eindæmum góð hjá honum og oft sjúklega fyndin. Nægir þá að nefna sem dæmi ,,hádramatísku” atriðin í seinni hluta verksins þar sem Ólafur fékk leikhúsgesti hreinlega til að frussa af hlátri.
Thelma Lind Þórarinsdóttir leikur Sóleyju. Það er langur vegur frá síðasta hlutverki Thelmu, sem hin virðulega álfadrottning í ævintýrinu um Benedikt búálf, til hinnar seiðandi Sóleyjar. Thelma er dásamleg í túlkun sinni á hinni munúðarfullu fyrirsætu og ótrúlega örugg þar sem hún spígsporar um teppalagað sviðið á háum pinnahælum. Hún stendur sig í raun ótrúlega vel miðað við hversu ung hún er. En ef sessunautar okkar hefðu ekki haft orð á því að fyrra bragði, þá hefði okkur aldrei grunað að þarna færi stúlka aðeins á sautjánda ári. Thelma hefur háan og skýran talanda og virðist algjörlega á heimavelli á leiksviðinu enda á hún víst ekki langt að sækja leikhæfileikana.
Margrét Steinunn Jónsdóttir leikur Sólveigu. Ég man síðast eftir Margréti í hlutverki Patty Simcox í söngleiknum Grease sem LV setti upp hér um árið. Ekki veit ég hvort hún hefur verið eitthvað viðloðin leiklistina síðan þá en hér birtist hún okkur hinsvegar sem veisluþjónustukokkurinn Sólveig. Margrét er bráðfjörug, mætir full af sjálfsöryggi á sviðið og ótrúlegt en satt verður hún bara betri eftir því sem líður á verkið. Þegar síðan kemur inn í seinni hluta verksins fer Margrét hreint og beint á kostum. Hún er skýr í tali, hressilega ófeimin án þess að vera alltof ýkt og hefur góða tilfinningu fyrir karakternum sínum.
Alexander Páll Salberg leikur Benóný hinn leðurjakkaklædda og sólbrennda eiginmann Sóleyjar. Þó hlutverkið sé það minnsta í verkinu verður það sama hvorki sagt um túlkun Alexanders á hlutverkinu né því sem blasir við áhorfendunum í hvítum, níðþröngum gallabuxum persónunnar. Áhorfendur hreinlega veltust um af hlátri í sætum sínum um leið og Alexander Páll sté á sviðið enda persónusköpunin óaðfinnanleg, túlkunin frábær og framkoman þannig að hún heimtar að öll athygli beinist að honum. Fáar en drepfyndnar setningar hittu sannarlega í mark og magnað hversu frábærlega vel Alexander fer alltaf með línurnar sínar svo hvert einasta orð skilst vel út í salinn.
Albert Snær Tórshamar leikur Ragnar vin Benedikts. Albert sá ég fyrst á haustsýningu LV í fyrra þar sem hann fór með lítið hlutverk en vakti engu að síður athygli mína fyrir örugga framkomu, flottan söng og skýran framburð. Hér mætir Albert Snær aftur á sviðið og nú í mun stærra hlutverki en síðast. Albert er alveg frábær í persónusköpun sinni og hrikalega fyndinn. Hann býr yfir mjög góðri framsögn, virðist ekkert hafa fyrir því að þylja upp langan texta og dettur ekki eina sekúntu úr hlutverki sínu... hvort heldur athyglin er á honum eður ei. Samleikur hans og Ólafs Inga var á köflum algjörlega frábær og svo er bara ekki annað hægt en að minnast á stjörnusamleik Alberts og Margrétar Steinunnar. Fyrsta atriðið þeirra eftir hlé var sjúklega fyndið enda réðu leikhúsgestir sér ekki fyrir kæti og klöppuðu þeim lof í lófa eftir að hafa tekið ítrekuð bakföll og hreint út sagt grátið af hlátri. Það hreinlega hlakkaði í mér eftir frumsýninguna að sjá að grunur minn um að í Alberti Snæ byggi flottur leikari, væri á rökum reistur.
Þetta er fjórða verkið sem Guðjón Þorsteinn Pálmarsson leikstýrir hjá LV en jafnframt fyrsti farsinn sem hann setur upp hjá félaginu. Hann má sannarlega vera stoltur enda afraksturinn af þrotlausri vinnu sjúklega fyndið og vel heppnað verk. Mín vegna mætti leikfélagið fá Guðjón aftur til að leikstýra hjá sér í framtíðinni, því árangurinn af starfi hans með leikhópnum er að mínu mati sérstaklega áberandi og áþreifanlegt í þessu verki. Hann virðist hafa fengið þessa sex ungu leikara, sem öll eru að leika vel uppfyrir sig í aldri, til að vinna vel í karakterunum og fyllt þau af svo miklu sjálfsöryggi í hlutverkum sínum að þau virðast fara, allt að því, áreynslulaust með rulluna sína. Verða eitt með karakterunum. Geri aðrir betur! Það hefur síðan þann stóra kost í för með sér, fyrir okkur leikhúsgesti, að við fáum að gleyma því í rétt rúmar tvær klukkustundir að þarna á sviðinu fer fólk sem við, í þessu litla samfélagi, hittum reglulega í Krónunni, pósthúsinu eða á 900 Grillhúsi. Það er nefnilega eitt að fá Jóa Jóns, sem allir í bænum þekkja, til að fara með hlutverk uppá sviði hjá LV. En að fá alla í bænum til að gleyma eina örskotstund að þarna fari Jói Jóns...er allt annar handleggur. Leikstjóranum hefur hinsvegar tekist nákvæmlega það og frammistaða leikarana á sviðinu sannar það svo um munar. Það gefur okkur, sem viljum veg bæjarleikhússins sem mestan, mikið þegar við sjáum svo ríkan metnað lagðan í alla vinnu tengda verki sem þessu. Leikgerðin var líka skemmtilega útfærð og handritið bæði staðfært og lagað að nútímanum með tilvísununum í snjallforrit og nafnkunna Eyjamenn. Sviðsmyndin var líka með þeim flottari sem sést hafa hjá LV og nokkuð ljóst að þar hefur verið vandað til verka þökk sé Guðjóni leikstjóra, Ragnari Gíslasyni og Alexander Salberg. Ég var alveg að kaupa þennan teppalagða og ledljósa-lýsta súrheysturn með steyptu útveggjunum. Ég hef margoft nefnt allt það góða fólk sem starfar hjá leikfélaginu bæði við búninga, hár, förðun, hljóð og mynd en ég má til með að hrósa þessu fólki enn og aftur. Búningarnir voru æði, sérstaklega múnderingin á Benóný, náttföt Ragnars og Benedikts og svo frábær úrvinnsla á dressinu hennar Sólveigar þegar hún breytist á fimm sekúntum úr prúðri þjónustustúlku í sjóðheita skvísu. Það er síðan ekki hægt að láta hjá líða að minnast á bráðskemmtilega og nokkuð súrealíska notkun á einstaka leikmunum í verkinu eins og brauðristina sem sá um tónlistina, nuddtækið sem reyndist vera sími og svo sturtublöndunartæki sem gegndu hlutverki dyrasíma! Öllum græjunum fylgdu síðan bráðskemmtileg hljóð sem fengu leikhúsgesti ítrekað til að skella uppúr þökk sé Viktori Rittmuller sem stjórnaði allri hljóðvinnslu og lýsingu að sinni alkunnu snilld. Ég hreinlega skora á alla Eyjamenn að sjá Sex í sveit um leið og ég hvet aðra landsmenn til að skella sér til Eyja og eiga frábæra stund í nýju þægilegu sætunum í hinu glæsilega leikhúsi okkar Eyjamanna. Það verður enginn svikinn af því...því get ég lofað ykkur.
Bravó...Guðjón Þorsteinn og þið öll hjá Leikfélagi Vestmannaeyja og hjartanlega til hamingju með þessa frábæru og vel heppnuðu sýningu.
Takk fyrir mig og okkur, Helena Pálsdóttir
Leikfélag Vestmannaeyja sýnir: Sex í sveit
· Höfundur: Marc Camoletti
· Þýðing og staðfærsla: Gísli Rúnar Jónsson
· Leikstjóri: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson
· Hljóð og ljósahönnun: Viktor Rittmuller
· Sviðshönnun: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson
コメント