Leikfélag Vestmannaeyja sýnir Ávaxtakörfuna Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson Höfundur verks: Kristlaug María Sigurðardóttir – Kikka Höfundur tónlistar: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Það er ekki oft sem það gerist að maður verði hreinlega klökkur af hrifningu á leiksýningu en nákvæmlega það gerðist að lokinni frumsýningu Leikfélags Vestmannaeyja á Ávaxtakörfunni föstudagskvöldið 28.október s.l. Að horfa á þann glæsilega hóp leikara sem stigu á svið, hneygja sig ítrekað fyrir framan fullan sal af áhorfendum sem risu á fætur, klöppuðu leikurum lof í lófa og ,,bravóuðu” yfir sig af hrifningu, var mögnuð stund. Það gerðist eitthvað stórkostlegt í leikhúsi okkar Eyjamanna þetta kvöld. Leikarar, sem sumir hverjir eru rétt á fermingaraldri og aðrir vanari, stigu á svið og yfirtóku hjörtu og huga leikhúsgesta með hreint mögnuðum leik- og söngatriðum. Ávaxtakarfan er eitt vinsælasta barnaleikrit allra tíma hér á landi enda hefur það allt sem þarf til að slíkt verk slái í gegn þ.e. góða sögu, frábæra tónlist og dásamlegan húmor sem líkt og í bestu Pixar teiknimyndum hittir jafnt í mark hjá börnum sem fullorðnum. Boðskapur verksins á líka alltaf erindi, ekki síst nú í dag. En í verkinu er tekið á mismunun, fordómum og einelti með einföldum og myndrænum hætti, skemmtilegum húmor og auðskiljanlegum texta. Við fáum að fylgjast með lífinu í ávaxtakörfunni þar sem ýmislegt gengur á milli ólíkra einstaklinga því sumir eru ber og aðrir grænmeti.
Það segir kannski sitt um sýninguna að strax í upphafslagi verksins höfðum við leikhúsfélagi minn Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir fengið a.m.k. þrisvar sinnum gæsahúð yfir einstaklega fallegum samsöng leikhópsins sem þarna gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. Og þegar við héldum að það yrði nú vart hægt að toppa svona góða byrjun þá kom hvert atriðið á fætur öðru þar sem áhorfendur ýmist veltust um hlæjandi í sætum sínum, klöppuðu af hrifningu, bravó-uðu…já eða táruðust. Það er ekki oft sem hægt er að tala um að tólf manna leikhópur standi sig það vel að ekki sé hægt að taka einhvern einn út og mæra hann sérstaklega fyrir frammistöðu sína. En sannleikurinn er sá að þarna gerðist það einmitt að enginn einn bar sérstaklega af í sínu hlutverki fremur er annar. Þau voru einfaldlega öll frábær hvert á sinn hátt! Það ber helst að þakka frábærri leikstjórn og hlutverkaskipan Ólafs Jens Sigurðssonar sem valdi hundrað prósent rétt í hvert hlutverk og leikstýrði hópnum óaðfinnanlega.
Má í því samhengi nefna að minnstu hlutverkin, í höndum þeirra Aðalbjargar Andreu Brynjarsdóttur, Söruh Elíu Tórshamar og Ástu Maríu Helgadóttur voru ekki síst skemmtileg áhorfs heldur en þau stærri, þó engar hefðu þær línurnar að fara með utan þess að taka þátt í samsöngnum. Ekki síst vakti það hrifningu okkar hversu Litla límónan, Ásta María var dásamlega einlæg og geislandi í hlutverki sínu. Perurnar tvær, þau Palla og Doddi, í túlkun þeirra Maríu Fannar Frostadóttur og Gabríels Ara Davíðssonar, voru líka bráðskemmtileg, uppátækjasöm og fyndin. María hefur líka einstaka útgeislun á sviði og fallega söngrödd. Kæmi ekki á óvart ef við myndum sjá hana enn meira á sviði í framtíðinni, jafnvel í stærri hlutverkum. Hún virðist hafa ástríðuna og hæfileikana til þess.
Alexander Páll Salberg og Elí Kristinn Símonarson túlka þá Guffa banana og Græna banana og eru alveg hreint dásamlegir í þeim hlutverkum. Elí Kristinn tekst vel til sem ögn klaufalegur lærlingur í lífvarðasveitinni á meðan meðan Alexander fer hreinlega á kostum sem Guffi yfirmaður hans. Það er einhvern veginn alltaf veisla þegar Alexander Páll tekst á við grínhlutverk enda maðurinn einstaklega fyndinn í allri túlkun sinni, svipbrigðum og fasi.
Albert Snær Tórshamar fer frábærlega með hlutverk Imma ananas. Albert, líkt og meðleikarar hans, er eins og sniðinn fyrir sitt hlutverk og fer vel með að túlka hinn stjórnsama og freka ananas sem vill helst og mest af öllu verða konungur yfir öllum hinum íbúum ávaxtakörfunnar. Albert er sjálfsöruggur, með góðan ,,presence”, flotta tækni og svo býr hann yfir þessari dúndur rödd sem hann kann að beita hvort heldur hún þarf að vera dimm, kröftug eða há og mjóróma. Valgerður Elín Sigmarsdóttir fer algerlega á kostum í hlutverki sínu sem hin geðþekka Gedda gulrót. Réttsýna grænmetið sem óvart lendir í ávaxtakörfunni. Valgerður hefur sannarlega vaxið með hverju hlutverkinu sem hún hefur tekist á hendur og geislar nú af sjálfsöryggi sem skilar sér í enn betri leik og glæsilegum söng. Bertha Þorsteinsdóttir er alveg dásamleg í túlkun sinni á Rauða eplinu. Henni hefur farið ótrúlega mikið fram með hverju hlutverkinu sem hún hefur tekið að sér. Hún hefur skýra framsögn, er bráðfyndin og með frábærar tímasetningar. Bryndis Guðjónsdóttir var hreint og beint sjúklega fyndin sem Eva appelsína.Hún veldur hlutverkinu vel, svo dásamlega ánægð með sjálfa sig, geislandi falleg og innilega dramatísk. Svo kann Bryndís að syngja og gerir það svona líka fanta vel. Og það gerir Guðný Emilíana Tórshamar svo sannarlega líka í hlutverki Mæju jarðarbers. En það var einmitt Guðný sem fékk undirritaða og sessunaut hennar til að tárast af hrifningu í túlkun hennar á laginu ,,Einmanna”. Hvílíkur flutningur…hvílík rödd í stelpunni! Svo er hún líka einstaklega skýrmælt eins og segja má um meginþorra leikenda í þessu verki. Þar kemur líka til frábær hljóðstjórn sem skilaði hinu talaða og sungna máli fullkomlega í eyru áhorfenda. Svo verður ekki hjá komist að minnast sérstaklega á Jórunni L. Jónasdóttur sem sá um alla söngþjálfun sem heldur betur skilaði sér í frábærum söngatriðum. Sumum hverjum sem myndu sóma sér á hvaða sviði sem er. Hár og förðun voru einnig til fyrirmyndar svo eftir var tekið og búningarnir dásamlega litríkir og fallegir. Þá verð ég að nefna hversu sviðsmyndin var vel útfærð og lýsingin falleg.
Takk Leikfélag Vestmannaeyja fyrir að leggja allt í eitt besta og metnaðarfyllsta verk sem þið hafið borið á borð fyrir okkur síðastliðin ár. Vá hvað það var gaman, vá hvað þetta var mikil upplifun og vá hvað við Eyjamenn erum heppnir að eiga þetta dásamlega leikhús og fólkið sem við það starfar.
Takk fyrir mig og okkur,
Helena Páls
Comments